Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

19.3.07

Svakaleg helgi

Nú verð ég barasta að blogga því helgin var svakaleg.

Eins og svo oft áður var ég að vinna um helgina en eins og flestir vita var veðrið kannski ekki það besta.

Á laugardag lenti ég í því að þurfa bruna upp á Gullfoss með nýja rútu því rútan sem var þar fyrir rann út af veginum. Á leið í bæinn fór veðrið versnandi, eiginlega svo versnandi að mér stóð ekki á sama. Þegar ég lagði svo af stað frá Hveragerði var ég hættur að sjá meira en rétt eina stiku fram fyrir rútuna sem stafaði af svakalegum skafrenningi. Þegar ég kom svo upp í Kambana dró ég hvernig bílinn af öðrum uppi en þeir komust ekki áfram sökum hálku, þeir spóluðu sig bara áfram og einhverjir sneru við (skynsamir). Á vissu augnabliki fór rútan líka að spóla því það var bíll fyrir framan sem stoppaði eiginlega á punktinum en sökum skyggnis þá var ég ekki almennilega klár á því hvar á veginum við vorum. Eftir að hafa keyrt yfir heiðina, nokkurn veginn eftir minni, þurfti ég að stoppa til að slá af þurrkublöðunum. Þá kom til mín maður sem hafði fest jeppann sinn þarna rétt hjá því "hann hitti ekki á veginn" eins og hann orðaði það. Jeppinn komst upp á veg í 2.tilraun og allir komust heilir heim.

Nú er bara hálf sagan sögð.

Í gær, sunnudag, fór ég af stað um hádegi í gullhring á stórri rútu sem vegur um 15 tonn tóm. Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar var allt í lagi með færð til Þingvalla þannig að stefnan var tekin þangað. Enn og aftur var skyggnið asskoti slæmt og jafnvel svo slæmt að akkurat ekkert sást fram fyrir rútuna. Öðru hvoru mætti ég litlum fólksbílum þannig að ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki verið svo slæmt. Er við vorum að koma til Þingvalla mættum við jeppakörlum með sleðakerrur, þar var einn eitthvað að drífa sig og tók fram úr öðrum. Sá rétt slapp á réttan vegarhelming áður en illa fór. Aðeins um 2-3 mín síðar mættum við fleiri jeppum og aftur öðrum jeppa á röngum vegarhelmingi en sá var ekki jafnheppinn og sá fyrri því þessi endaði framan á rútunni. Höggið var svo sem ágætt en við fundum lítið sem ekkert fyrir því. Jeppinn var skilinn eftir á Þingvöllum því hann var óökuhæfur eftir áreksturinn. Sem betur fer voru engin alvarleg slys á fólki (enginn farþegana slasaðist) en fólkið í jeppanum fann fyrir verkjum í hálsi, öxlum og baki. Út af því þurfti að kalla til lögregluna sem kom eftir dágóða stund sökum slæms skyggnis. Tjónið á rútunni var það lítið að hægt var að klára ferðina en þó var það ekkert svo lítið. Framendinn var allur í klessu, þó sérstaklega vinstra hornið.
Á leið frá Þingvöllum, niður með Soginu, kom það 2-3 sinnum fyrir að ég hreinlega stoppaði því ég sá minna en ekkert.

Við náðum að klára hringinn án frekari óhappa og allir voru himinlifandi með að komast á hótelin heilir á húfi. Það gerist nú ekki oft en ég fékk dúndrandi lófaklapp og húrrahróp þegar við komum til Rvk.

Lærdómur fyrir alla aðila;
Högum akstri eftir aðstæðum og reynum eftir fremsta megni að keyra á réttum vegarhelmingi.

3 Comments:

At 3:55 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

ó my gat ekki gott

kv Rebekka

 
At 9:55 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

sjitt, það er gott að ekkert kom fyrir þig né aðra. Það er alveg hreint ömurlegt að keyra t.d. heiðina í blinda skafrenningi. Maður er alltaf með á tilfinningunni að maður sé að fara út af eða aftan á einhvern eða hreinlega framan á .

Guðjón E.

 
At 12:11 e.h., Blogger Unknown said...

rosalegt mar!

 

Skrifa ummæli

<< Home