Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

20.3.08

Löng færsla

Er nú ekki kominn tími á smá uppfærslu? Það er svo langt síðan ég skrifaði eitthvað hér að ég gæti skrifað langan pistil um allt það sem við Katrín höfum verið að gera. Jæja, látum okkur nú sjá;

Sú skemmtilega staða kom upp í byrjun skólans að annað íslenskt par labbaði upp að okkur í bókabúð skólans. Eftir smá spjall var ákveðið að hafa samband fljótlega og reyna gera eitthvað. Stuttu seinna, kom skólabróðir minn úr FG upp að mér á skólalóðinni – out of nowhere. Við ákváðum að stefna að því að fá okkur kaffi saman við tækifæri. Allt í einu vorum við ekki lengur einu Íslendingarnir hér í borginni heldur 6 því parið hafði hitt annan strák sem leigði í sama húsi og þau. Nú tóku við smá pælingar um hvað skyldi gera og var ákveðið að hópurinn skyldi fara út að borða, kínverskur veitingastaður varð fyrir valinu. Við Katrín höfum farið á þennan stað áður þannig að við vissum hvað okkur langaði í, Peking önd. Við hvöttum krakkana til að smakka eitthvað fáránlegt í forrétt sem þau og gerðu. Forréttirnir samanstóðu af marglyttu, reyktum fisk, vorlaukskökum, BBQ kjúkling í salatskál með hrísgrjónum, chillikartöflum og rækjubrauði – allt saman mjög gott og misbragðsterkt.
Næsta dag fórum við svo öll 6 saman í útibíó en það er hefð fyrir útibíóum í Royal Botanical Gardens hér í borg yfir sumarmánuðina.
Helgin var mjög vel heppnuð og höfum við stefnt að því að gera eitthvað meira saman.

Um síðustu helgi skruppum við í smá ferðalag í NA-hluta borgarinnar fyrir aðeins A$2,9 eða um 200 kr/mann í lest. Það besta við þetta ferðalag okkar var að þetta reyndist heitasta helgi haustsins, um og í kringum 40°C og ekki skýhnoðri á himninum. Úthverfið sem við fórum að skoða heitir Eltham og má segja að það sé á mörkunum að geta talist til hluta borgarinnar því það var svo margt ansi sveitalegt þar að sjá. Við ákváðum að fara skoða þeirra helsta djásn, Montsalvat, sem reyndist vera minjasafn. Það sem við ekki vissum var að safnið var í útjaðri bæjarins og uppi í fjalli. Við þrömmuðum af stað frá lestarstöðinni full af orku en eftir um hálftíma göngu voru skrefin farin að þyngjast. Við spurðum því til vegar í ísbúð sem birtist upp úr þurru og fengum að vita að enn væru um 2-2,5 km á áfangastað. Áfram var haldið, upp og niður brekkur þar til við komum að skilti sem vísaði okkur á réttan stað. Þegar við tókum beygjuna blasti við okkur löng og brött brekka, ca 12-14% halli, sem töluverð umferð var um. Eftir mörg þung skref komum við að öðru skilti sem vísaði upp aðra bratta en ekki svo langa brekku. Þegar við vorum nýlögð af stað upp þá brekku stoppaði pallbíll hjá okkur. Bílstjórinn bauð okkur far með þessum orðum; “I see that the sun has got into you, do you want a ride?” Við afþökkuðum farið því það voru einungis um 200 metrar eftir. Þegar við komum svo á safnið leituðum við strax að kaffiteríunni því við vorum að drepast úr þorsta. Þegar við fundum kaffiteríuna var verið að loka henni en þjónninn sá hversu illa við vorum haldin og bauð okkur inn. Við keyptum okkur hressingu og kláruðum næstum heilan líter af vatni á innan við 5 mínútum. Nú var komið að því að skoða safnið, það reyndist ein stysta safnferð ævinnar því það var verið að loka. Nú tók hin langa ganga aftur við en nú var hún öll niður í móti. Á bakaleiðinni stoppuðum við í ísbúðinni og fengum okkur ís áður en við röltum á lestarstöðina. Þegar heim var komið vorum við svo úrvinda að við steinrotuðumst mjög fljótlega.

Að öðru leyti er lífið hjá okkur orðið ósköp venjulegt stúdentalíf í útlöndum; vakna snemma, læra, tími seinni partinn eða um kvöldið, læra kannski smá eftir tíma, borða, sofa. Jebb, kvöldmaturinn er ekki endilega kl 19, hann er bara þegar það hentar að fara elda. Undirritaður sér sko um eldamennskuna því Katrín er búin að fá nett ógeð á því að elda hinn klassíska stúdentamat. Nú spyrja sumir sig örugglega hvort við séum þá ekki bara að sulla í víni og slíku, svarið við því er stórt nei því áfengið hér er jafn dýrt og heima – mjög dýrt. Kippa af litlum bjórdósum kostar um A$13 eða um 900 kr (1AUD = ca 70 kr, var 61 þegar við fórum í febrúar).

Að veðrinu, af því að mér þykir svo gaman að minnast á það. Síðasta vika hefur verið með eindæmum góð því nokkra daga í röð fór hitinn varla niður fyrir 35°C, var oft um 40°C, þessu fylgdi að sjálfsögðu glampandi sól. Mér þótti það bara nokkuð gott en helsti gallinn við þetta var að það var frekar erfitt að sofa á nóttunni. Loftið var gjörsamlega dautt, ekki einu sinni 1 m/sek. Á 2 dögum hefur hitastigið fallið um helming því í dag, skírdag, erum við að tala um ca 20°C, skýjað og smá rok. Stuttbuxurnar fá því að hvíla sig í dag en í staðinn verður farið í fataskápinn og úr honum teknar buxur, sokkar og jafnvel langerma bolur/peysa sem hefur verið ónotað í heilan mánuð.

Læt þetta duga í bili en lofa að skrifa aftur fljótlega.
Gleðilega páska.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home