Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

27.4.08

ANZAC

Sælt veri fólkið

Síðasta föstudag var svokallaður ANZAC dagur hér í Ástralíu en á þeim degi er hermönnum þessa lands sýnd virðing. Dagurinn byrjar á því að fólk safnast saman við minnisvarða um fallna hermenn, sú athöfn fer fram í dögun eða á milli 4 og 6 að morgni. Eftir athöfnina marséra fylkingar um götur borgarinnar við taktfastan trommuslátt og einstaka trompet. Um hádegi er svo aðalskrúðganga dagsins en þá safnast þeir hermenn saman í miðborginni sem hafa þjónað landi sínu í gegnum súrt og sætt síðustu áratugina og marséra saman að minnisvarðanum. Inn á milli hópanna keyra svo gamlir herbílar. Þegar að minnisvarðanum er komið, og allir hafa skilað sér þangað, hefst dagskrá í tilefni dagsins. Dagskráin hófst á þjóðsöngnum og Faðir vorinu, á eftir því kom fylkisstjórinn í pontu og síðan hver annar pólitíkusinn.

ANZAC stendur fyrir Australian New Zealander Army Corps. Þann 25.apríl árið 1915, réðust ástralskar og ný-sjálenskar hersveitir inn í Tyrkland. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð ástæðunni enn, en þetta var víst stórmerkilegt í sögu landsins. Þúsundir ástralskra og ný-sjálenskra hermanna létu lífið í þessum hluta fyrri heimsstyrjaldarinnar en þeim hafa stöðugt verið þakkaðar þessar fórnir. Í 95 ár hafa Ástralir vottað öllum sínum hermönnum virðingu á þessum degi, óháð því í hvaða stríði þeir hafa verið, ef þeir hafa þá farið í stríð.

Við Katrín vöknuðum upp við dynjandi trommuslátt í morgunsárið. Þegar við litum út um gluggann sáum við fylkingu hermanna marséra um götuna okkar. Þetta var mjög tignarleg sjón og í raun geta fá orð lýst þeirri upplifun sem þessi sjón var.
Við röltum niður í bæ til að sjá hina stóru skrúðgöngu. Þar var önnur tignarleg sjón því þegar við komum á svæðið voru alls kyns hermenn að stilla sér upp. Elstu göngugarparnir voru líklegast í kringum nírætt og allt niður í fólk á mínum aldri. Sumir af þeim sem yngri voru báru líklegast orður feðra sinna eða afa, en það voru sko ekkert fáar orður á sumum þeirra. Ég man eftir að hafa séð 3 þéttar raðir á nokkrum herramönnum. Hópunum var raðað þannig upp að þeir sem höfðu barist í t.d. seinni heimsstyrjöldinni komu allir í einu. Inni í þeim hóp var svo raðað eftir því hvar þeir höfðu barist. Svona var þeim öllum raðað, ekkert endilega í tímaröð. Inn á milli komu svo herbílar frá hverju tímabili, fullt af flottum Jagúar-bílum og ég tala nú ekki um Rollsana. Með reglulegu millibili voru svo sekkjapípuhópar og lúðrasveitir sem spiluðu lög við hæfi.

Þegar síðasti hópur hafði lagt af stað, komu áhorfendur á eftir. Leiðin lá að minnisvarða um alla þá hermenn sem hafa þjónað landinu, jafnt fallna sem ófallna. Hjá minnisvarðanum stóðu hermenn vaktina, óvopnaðir þó, heiðursvörður væri líklega betra orð. Eftir stutta stund var fólk beðið að standa á fætur og hlýða á þjóðsönginn og fara svo með Faðir vorið. Það þótti mér einna tilfinninganæmasta stundin því ég sá fólk tárast á meðan það fór með Faðir vorið. Því næst fylgdu ræðuhöld sem við Katrín nenntum ekki að hlusta á.

Á heimleiðinni sáum við mun manneskjulegri hlið á hermönnunum, þeir voru á barnum með öl í hönd. Mér þótti það skondin sjón því þeir voru margir hverjir í herbúningunum.

Í skrúðgöngunni voru 15.000 þátttakendur og var áætlað að áhorfendur hefðu verið 50.000. Það var sko vel þess virði að sjá þetta því við munum ekki upplifa svona skrúðgöngu heima á Íslandi. Eini sénsinn á því væri reyndar ef við héldum þeim degi hátt á lofti sem Bretar gáfust upp í Þorskastríðinu, hér forðum daga, en ég held að það verði ansi slöpp skrúðganga til lengdar.

Þessi dagur, föstudagurinn 25.apríl 2008, mun seint gleymast því öll sú virðing sem hermönnum þessa lands er sýnd er ekkert lítil. Hátíðarhöldin sem slík þóttu mér mjög persónuleg, það var ekkert verið að reyna gera þetta glæsilegt, heldur var áherslan lögð á merkingu dagsins. Ástralir eiga hrós skilið fyrir tryggð sína við alla þá menn og konur sem hafa þjónað landinu í stríðum síðustu aldar.

1 Comments:

At 1:12 f.h., Blogger Unknown said...

kvitt fyrir komuna.
Merkilegt hvað þykir merkilegt í útlöndum.
Eitthvað sem maður vissi ekki einu sinna af. Ástralir í Tyrklandi!

 

Skrifa ummæli

<< Home