Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

15.4.08

Footy

Núna um helgina skelltum við Katrín okkur á völlinn, við fórum að horfa á ástralskan fótbolta sem í daglegu tali er kallaður footy. Þetta var heljarinnar upplifun því við vorum eins og lítil heystrá í hlöðu, á vellinum voru rúmlega 44 þúsund áhorfendur. Stúkurnar voru á þremur hæðum, plús VIP hæðin sem var á milli hæða 2 og 3 og voru þær langt í frá að vera fullar. Leikurinn sem slíkur var mjög fjörugur þrátt fyrir að við skildum hvorki upp né niður í honum til að byrja með.
Til að gefa ykkur einhverjar vísbendingar um það hvernig leikurinn gengur fyrir sig þá skal ég reyna útskýra það. Leikurinn er í fjórum hlutum, 2 fyrir og eftir hálfleik, hver hluti er 20 mínútur. Á vellinum eru mjög margir leikmenn (náði ekki að telja), a.m.k. 6 dómarar og alltaf einhverjir vatnsdrengir til að gefa leikmönnunum að drekka. Þar að auki eru 2 sendiboðar af varamannabekknum inn á allan tímann (í sérbúning), líklegast til að koma skilaboðum frá þjálfurunum til skila til leikmannanna. Ég kalla þá sendiboða því það voru alltaf 2 að skiptast á að koma inn á, kannski tengdist það vörn og sókn. Það tók okkur Katrínu allan fyrsta leikhlutann að fatta gang mála. Á endanum ákváðum við að halda með því liði sem átti fleiri stuðningsmenn í kringum okkur en það var útiliðið. Það var líka eins gott því það lið vann með yfirburðum.
Það að fara svona á völlinn er sko miklu meira en að horfa á nokkur vöðvabúnt hlaupa hvert annað niður, þetta er sko heljarinnar menningarferð því þarna sér maður sko hvernig Ástralir eru í raun og veru. Boltinn er kannski svona helmingurinn af þessu en kúltúrinn hinn helmingurinn. Fólkið í kringum okkur var sífellt að skreppa í sjoppurnar, m.a. til að kaupa sér franskar, gos og síðast en ekki síst bjór. Mannskapurinn var sko ekkert að hika við það að fá sér nokkra kalda, þó svo að þeir þyrftu að troðast inn í miðja sætaröð með plastglasið eða jafnvel 4 glasa bakkana. Að sjálfsögðu voru einstaklingar á svæðinu sem kunnu sér ekki hóf í drykkjunni, en mér fannst það bara sýna hinn innri karakter heimamanna.

Ég held ég geti sagt það með nokkurri vissu að ég á eftir að fara á annan footy leik, þá ekki síst út af því að hér í borg eru 2 stórir leikvangar. Sá sem við fórum á er sá minni en hann tekur um 60 þúsund áhorfendur í sæti, sá stærri tekur rétt um 100 þúsund. Spurning um að velja góðan leik, líkt og við gerðum fyrir þessa helgi en liðin sem við sáum spila eru þau bestu í landinu og spiluðu meira að segja til úrslita í fyrra.

Footy-kveðja héðan að sunnan.

1 Comments:

At 3:48 f.h., Blogger Katrin said...

Tad var svaaaaaka gaman a footy.
Aussie, aussie, aussie
oi, oi, oi!!

Go Cats!!

heldur betur godar minningar :D

 

Skrifa ummæli

<< Home