Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

14.4.08

Lífið eftir páska

Nú er komið að því að fræða ykkur um lífið hér suður frá eftir páska.
Katrín fékk 1 viku í kennslufrí eftir páska en á sama tíma var ég kominn á fullt í að undirbúa mig undir enskupróf sem ég þreytti 5.apríl. Sú vika snerist því við, ég var að læra en Katrín að slappa af. Síðasta vika var sameiginleg þjáningarvika hjá okkur því ég var að læra á fullu og Katrín þurfti að hafa sig alla við til að halda í við kennarana. Þessi vika, á hinn bóginn, hefur verið algjör letivika hjá mér og það stefnir í fleiri þannig vikur í nánustu framtíð. Ég reyni því mitt besta að hvetja Katrínu áfram og jafnvel líta yfir þau verkefni sem hún er að vinna.

Til að brjóta upp hið hefðbundna stúdentalíf breyttum við okkur í erlenda ferðamenn. Hópurinn samanstóð af 9 víkingum; 5 Íslendingum, 2 Dönum og 2 Finnum. Var um dagsferð að ræða í rútu með leiðsögn og var ferðinni heitið í vínsmökkun og gufulest. Dagurinn heppnaðist alveg svakalega vel, svo vel að hann endaði á pöbb um kvöldið. Eitt get ég sagt ykkur, það að borða 2 stórar máltíðir yfir daginn er sko allt of mikið fyrir mig. Varúð – ekki fyrir viðkvæma; ég hafði ekki lyst á nema rétt tæpum 3 bjórum um kvöldið. Já, ég veit, þetta jaðrar við guðlasti. Guðjón, ég vona að þú fyrirgefir mér þetta – hehe.
Þar að auki skelltum við Katrín okkur niður að sjó til að berja hinar frægu mörgæsir augum. Við fórum á stað sem heitir Phillip Island en það tók um 2,5 tíma að keyra þangað þaðan sem við búum. Það var töluverð upplifun að sjá mörgæsirnar svona nálægt manni koma upp úr sjónum og hlaupa upp eftir ströndinni í holurnar sínar. Ætli það næsta sem maður hafi komist þeim hafi ekki verið um 1 metri. Til að toppa kvöldið sáum við villta kengúru skoppa inn á milli mörgæsanna, í runnunum. Það var frábær upplifun.
Eftir enskuprófið var okkur Katrínu svo boðið í skandínavískt grill. Sökum prófþreytu sváfum við grillið af okkur en mættum í staðinn galvösk í gleðskap eftir grillið. Þá reyndi ég hvað ég gat að bæta upp fyrir drykkjuleysið eftir rútuferðina. Það gekk svona líka vel að ég var frekar ryðgaður fram eftir sunnudeginum.

Snúum okkur nú að veðrinu. Það hefur sko heldur betur breyst frá páskum. Í vikunni eftir páska og fram eftir síðustu viku var nú bara frekar svalt eða um 15 gráður. Þá dugði sko ekkert minna en buxur og peysa, Katrín fór meira að segja í jakka. Nú er öldin önnur, sem betur fer. Nú er glampandi sól og hitinn um 20-30 gráður, stuttbuxurnar eru því komnar aftur í notkun. Njótið vorblíðunnar á norðurhvelinu og ég tala nú ekki um alla hálkuna.

1 Comments:

At 11:43 f.h., Blogger Bidda said...

Æi góði vert'ekki að koma inn neinni öfund sko:D
Var að koma úr Vesturbæjarlauginni, búin að flatmaga í sólbaði í pottunum, mmm...
En það er gaman að fylgjast með ævintýrum ykkar þarna suðurfrá, elska svona blogg:D
Kveðjur til Katrínar

 

Skrifa ummæli

<< Home