Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

10.4.08

Ástralskir páskar og páskasteikin ógurlega

Mikið svakalega stend ég mig vel í því að segja fréttir héðan af suðurhvelinu, eða þannig. Það eru víst komnar 3 vikur frá síðasta pistli sem er óafsakanlega langt síðan.
Páskarnir hérna suður frá (down under eins og heimamenn segja) voru frekar frábrugðnir hinum hefðbundnu páskum að því leytinu til að maður borðaði kryddaða kengúrusteik með piparsósu og alls kyns grænmeti. Með þessari svakalegu steik drukkum við svo hið fínasta rauðvín sem kostaði ekki nema rétt 600 kr. Í eftirrétt fengum við okkur svo Nóa páskaegg ásamt ástralskri súkkulaðiköku. Annað atriði sem var frábrugðið páskunum hér og heima er að hér voru um 25°C og við nutum kengúrunnar á stuttbuxum og –ermabol.

Annar dagur páska byrjaði á því að við röltum út í búð til að færa björg í bú og til að kaupa ástralskt páskaegg á hálfvirði. Við keyptum ekki bara eitt lítið egg, heldur tvö, í ágætri stærð. Eftir kvöldmat gæddum við okkur á því minna sem var páskakanína úr Deluxe rjómasúkkulaði frá Cadbury´s. Hitt eggið var Mars egg ásamt þremur Mars súkkulaðistykkjum. Það bíður enn eftir því að við gæðum okkur á því. Cadbury´s eggið var mjög gott og jafnvel betra en Nóa eggin en Nói hefur þó vinninginn hvað varðar nammið og málsháttinn því það er ekkert svoleiðis hér niður frá að því er við best vitum.

Páskasteikin heppnaðist alveg rosalega vel, hún var jafnvel betri en íslenski hamborgarahryggurinn. Ég ætla láta uppskriftina fylgja með hér fyrir neðan (höfundarréttur áskilinn):

500 gr af kengúrukjöti
½ sæt kartafla
2 gulrætur
½ haus af brokkoli
Dós af grænum baunum
Dós af sveppum
Piparsósa
Nokkur saltkorn
Rauðvínsflaska

Eldunaraðferð:
Rauðvínsflaskan opnuð. Kengúran lögð í rauðvínsmareneringu ca klukkustund fyrir eldun, grænmetið og kartaflan skorin niður eftir smekk, niðursuðudósir opnaðar.
Pannan sett á eldavélina við nokkuð snarpan hita, kartaflan látin á pönnuna ásamt nokkrum saltkornum, hún látin steikjast þar til hún verður létt gyllt að utan, þá tekin af pönnunni og sett til hliðar. Því næst er kengúran flutt úr mareneringunni yfir á pönnuna ásamt rauðvínsleginum. Ekki þykir ráðlagt að lækka hitann fyrr en kjötið er lokað að utan. Þegar hitinn hefur verið lækkaður er nauðsynlegt að fylgjast vel með, passa að steikin brenni ekki að utan og einnig að hún verði ekki hrá í miðjunni, t.d. með því að skera í kjötið og skoða hver staðan er. Varast ber þó að ofsteikja kjötið því kengúrukjöt bragðast best medium eða medium rare steikt.
Nú skal setja um 1 bolla af vatni í pott ásamt hæfilegu magni af salti. Kveikja skal undir pottinum og bíða eftir suðu. Þegar suðan kemur upp er ráðlagt að setja gulræturnar út í, en brokkolí-ið aðeins síðar því það þarf styttri suðutíma. Grænmetið er svo gufusoðið þar til það er tilbúið.
Nú skal litið aftur á kengúruna. Ef rauðvínslögurinn hefur gufað upp er ekki úr vegi að skella smá lögg af olíu á pönnuna til að koma í veg fyrir bruna. Þegar sýnt er að kengúran sé að verða tilbúin er tilvalið að skúbba kartöflunum aftur á pönnuna og jafnvel bæta smá olíu við. Eins og glöggir menn vita er nauðsynlegt að snúa kengúrunni og kartöflunni reglulega við svo að koma megi í veg fyrir stórbruna og þurra steik.
Að þessu loknu skal hugað að sósugerð. Þá skal sósubréfið skoðað vandlega og leiðbeiningunum fylgt í hvívetna. Þó má bregða út af þeim og skella um hálfri dós af sveppum með ef svo ber undir. Sósan þarf ekki langan eldunartíma.
Nú, þegar allt er að verða tilbúið, er um að gera að ákveða hvort hinar grænu baunir skulu etnar beint úr dósinni eða hitaðar örlítið upp í örbylgjunni.

Hentugt getur verið að tveir einstaklingar komi að þessari eldamennsku því annar þarf að fylgjast nokkuð grannt með kengúrusteikinni sökum þess hversu viðkvæm hún er í steikingu. Sá einstaklingur sem lausari er við getur lagt á borð, skenkt rauðvíni í glös og sett ljúfa tóna undir geislann.
Nú er ekkert að vanbúnaði en að hefja matarveisluna.

Eftirréttur:
Íslensk desertegg frá Nóa Síríus, dýrindis áströlsk súkkulaðikaka og restin af rauðvíninu.

Njótið vel og verði ykkur að góðu.

p.s.
Vera má að smekkur manna sé misjafn þannig að þeir velji t.d. nautakjöt í stað kengúru og er það vel. Sökum hás kílóaverðs á nautakjöti hér syðra hef ég ekki lagt í slíka matreiðslu. Ef þið viljið frekar nautakjöt þarna norður frá þá er það í góðu lagi mín vegna. Varhugavert getur þá verið að fara eftir þessari uppskrift í einu og öllu.

1 Comments:

At 7:10 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

thanks for sharing...

 

Skrifa ummæli

<< Home