Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

2.8.08

Námsmaður í útlöndum og heimsfrægðin

Þar kom að því, ég er orðinn íslenskur námsmaður í útlöndum. Ég er byrjaður í mastersnámi í utanríkisverslun (blanda af hagfræði og viðskiptafræði) í The University of Melbourne. Fullt nám hér er 4 námskeið, hvert um sig með sitt klassíska háskólaálag í náminu. Ég kem til með að þurfa skila lokaritgerðum í þeim öllum sem gilda frá 20% upp í 50% af lokaeinkunn en sem betur fer tek ég bara 1 lokapróf. 2 af námskeiðunum eru kennd um helgar (annað í ágúst og hitt í september), það sem kennt er í ágúst klárast með sinni 50% lokaritgerð 20.sept þannig að vinnuálagið ætti ekki að vera of mikið - vonandi. Annars stakk ég upp á því við Katrínu hvort ég ætti ekki að skipta um nafn og láta kalla mig herra Ritgarð, þar sem ég þarf að skrifa samtals um 20.000 orð í ritgerðum á þessari önn.
Annars leggst önnin bara furðuvel í mig þrátt fyrir allan þennan haug af ritgerðum og ég tala nú ekki um allt efnið sem ég er nú þegar búinn að prenta út - um 500 blaðsíður af lesefni í stað kennslubóka. Þessar 500 bls tilheyra bara 2 námskeiðum, það þriðja er eftir. Ég kem bara til með að lesa eina hefðbundna kennslubók til jóla.

Að enn skemmtilegri hlutum - heimsfrægðinni hér í Melbourne.
Ef þið kíkið á visir.is og sjáið þennan tengil þá sjáið þið hvernig heimsfrægðin fer með mann hér í henni Ástralíu.
Annars var það þannig að við skelltum okkur á tónleika með ekki ófrægara bandi en Sigur Rós í gærkvöldi, föstudag. Þrátt fyrir að hafa aldrei hlustað á þá sem heitið getur verð ég að viðurkenna að þeir voru nú bara skrambi góðir. Það skemmdi heldur ekki fyrir að við Katrín sveifluðum íslenska fánanum eins og við fengjum borgað fyrir það á meðan á tónleikunum stóð. Það eitt að standa þarna úti í mannhafinu með íslenska fánann að hlusta á íslenska hljómsveit svo langt frá heimaslóðum, fyllti mann svo af þjóðarstoltinu að orð fá því varla lýst. Það skemmdi heldur ekki fyrir að fá sérstakt klapp frá sjálfum söngvaranum í lok tónleikanna. Toppurinn hefði samt verið að fá að hitta kappana en öryggisverðirnir voru strangari en allt sem strangt er þegar kom að því að reyna komast baksviðs, hnuss, þá hefði þjóðarstoltið rifnað endanlega.

Eigið annars góða verslunarmannahelgi, gangið hægt um gleðinnar dyr.

2 Comments:

At 2:45 e.h., Blogger Bidda said...

Þú tekur þig vel út með fánann:D

 
At 11:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gangi þér vel í náminu - verður greinilega nóg að gera. Svo þarftu að hugsa um Katrínu í ofanálag það er 100% vinna og námið önnur 100%.

kveðja
Svenni

 

Skrifa ummæli

<< Home