Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

4.10.08

Allt á bullandi niðurleið

Nú er að vissu leyti gott að vera námsmaður í útlöndum, sérstaklega þegar hugsað er til ætlaðs óstöðugleika á vinnumarkaði. Gallinn er hins vegar veiking krónunnar því nú þurfum við fleiri krónur fyrir hvern ástralskan dollar (gengið var ca 70 kr/AUD í júlí, er 87 núna). Sem dæmi um heildaráhrifin þá hefur leigan hækkað um ca 50% frá því í febrúar en þá var gengið um 60 kr/AUD.

Þjóðstjórn eða ekki, reka mann og annan, skipta um einstaklinga í ákveðnum sætum í ákveðnu húsi í 101 Rvk o.s.frv er eitthvað sem ég ætla ekki að tjá mig um í þessu samhengi. Eftir því sem ég les fleiri fréttir af ástandinu heima finnst mér sem múgæsingin sé að verða meiri. Fólk ætti að róa sig í svartsýnisspánni og líta frekar í eigin barm, allar offjárfestingar síðustu ára (t.d. húsnæðis-brjálæðið) sem eru í raun að valda þessu rugli núna. Skammtímaminni fólks er greinilega mjög takmarkað því það var varað við þessum áhrifum af viturbornum mönnum í upphafi "góðærisins". Nú er einfaldlega komið að skuldadögum sem því miður lendir líka á þeim skynsömu.
Eina afstöðu gef ég þó uppi, Ísland ætti EKKI að ganga í ESB þrátt fyrir þessar þrengingar. Við töpum miklu meiru en við græðum, t.d. fiskimiðunum og öðrum auðlindum.

Skemmtilegri fréttir.
Það var mjög gaman að lesa um snjókomuna í Rvk um daginn og að bílar væru fastir í Ártúnsbrekkunni. Þegar ég las þetta var ég ansi sumarlega klæddur því hér voru um 25 gráður og glampandi sól. Hitastigið mun nálgast 40 gráðurnar áður en langt um líður og þá mun ég skemmta mér enn frekar við að lesa ófærðarfréttir að heiman.

Fyrir þá sem vilja vita það, þá hef ég lokið einu námskeiði af 4 nú þegar, fæ þó ekki einkunnina fyrr en í desember. Hin 3 munu öll klárast í nóvember, eitt með ritgerð, annað með heimaprófi og það síðasta með hefðbundnu gagnaprófi.

Sumarkveðja frá Melbourne

1 Comments:

At 10:41 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Jón, er ekki orðið löngu úrelt að vera á móri inngöngu Íslands í ESB? Okkar aðalauðlind síðustu áratugi, fiskurinn, er einfaldlega ekki að standa undir þjóðinni í dag og er of flöktandi auðlind og hvað aðrar aðlindir varðar þá getur ESB á engan hátt stjórnað þeim, svo hvar eru eiginlega vandamálin?

Svo ein spurning er ekki ástæða þessarar bankakreppu á Íslandi að stoðir íslenska bankakerfisins liggja næstum allar á sömu klöpp og þegar sú klöpp (lán frá Bandaríkjunum) gefur sig, þá hrynur kerfið með? S.s. við höfum æll okkar egg í sömu körfu í stað þess að dreifa þeim?

 

Skrifa ummæli

<< Home