Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

8.3.09

Vika 1 að baki

Þá er vika 1 að baki og skólinn að komast í gang. Vikan var í eðli sínu ósköp hefðbundin skólavika, ég er í tímum á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum frá 6-9 og fimmtudögum frá 2-5. Þegar ég var ekki að lesa (kennararnir eru sko ekkert að láta skólann byrja rólega) eða sofandi var ég að útrétta hitt og þetta sem tengdist skólanum eða húsnæðinu eða hitta samnemendur yfir mjöð eða kaffi.

Aðeins um slottið sem ég bý í, fyrir þá sem hafa áhuga.
Ég bý sem sagt í lítilli stúdíóíbúð, ca 20fm, á 8.hæð. sem hefur allt til alls nema stofu. Ég er með fínt útsýni í vesturátt sem þýðir að ég fæ eftirmiðdagssólina og sólsetrið inn um gluggann hjá mér.

Stærstu fréttir vikunnar er samt jarðskjálfti, jebb, jarðskjálfti hér í Melbourne. Heimildir herma að þetta hafi verið öflugasti jarðskjálftinn í ca 35 ár. Hann mældist 4,5 á Richter og átti sér upptök hér rétt fyrir utan borgina á föstudagskvöld um kl 20:30. Þetta var ósköp hefðbundinn skjálfti, a.m.k. eins og ég hef upplifað þá heima; fyrst kom smá titringur og svo aðalskjálftinn. Mín fyrstu viðbrögð voru; "nei, það getur ekki verið að þetta hafi verið skjálfti, ekki í Melbourne" en svo fóru að renna á mig tvær grímur. Ástæðan er einföld, húsin hér eru svona ca búin til úr pappa þannig að ef það kæmi góður "Suðurlandsskjálfti" þá myndu mörg hún skemmast eða hrynja. En jæja, einhvern tíma er allt fyrst - að upplifa jarðskjálfta á svæði sem ég hélt að væri algjörlega laust við svoleiðis hluti.
Ég var reyndar spurður að því í gær, laugardag, hvort okkur (Íslendingum) væru kennd einhver ákveðin viðbrögð þegar jarðskjálfti eða eldgos ættu sér stað. Ég sagði nú bara eins og væri að það væri mjög staðbundið því sum svæði eru utan hættusvæða eldgosa en vissulega fengju margir sjokk þegar hressilegur skjálfti ætti sér stað.

Veðurfréttir:
Það var kalt í Melbourne í síðustu viku, hitinn fór niður í 10 gráður á nóttunni sem þýddi að það þyrfti að sofa með sæng. Veðrið í þessari viku stefnir í að verða skárra eða allt að 28 gráður yfir daginn ef allar spár ganga eftir. Samanborið við sama tíma í fyrra þá er þetta frekar svalt/kalt en þá var að jafnaði um 25-30 gráður á daginn og sængin var geymd uppi í skáp þar til seint í mars.

Læt þetta duga í bili.