Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

23.11.06

Tónleikar á laugardag

Næsta laugardag, 25.11., mun Háskólakórinn halda tónleika í Neskirkju kl 17. Ég mæli eindregið með því að fólk mæti þangað því sjón er sögu ríkari. Aðgangseyrir er hvorki meira né minna en kr 2000.

Fyrir þá sem ekki vita þá mun kórinn einnig gefa út geisladisk nú í upphafi desember með hinum ýmsu perlum og geta áhugasamir nálgast eintak hjá mér. Eintakið mun ekki kosta mikið en það verður vel þess virði að fjárfesta í einu stykki.

13.11.06

Álver og stækkanir

Datt í hug að henda inn smá pælingu um fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík. Þessi stækkun hefur farið fyrir brjóstið á sumum heima í Hafnafirði.

Ég held að þetta sé á mörkunum með að vera birtingarhæft í almennum fjölmiðlum, læt því duga að birta þetta hér. Ath, þetta er með öllu óritskoðað.

- - - - -

Undanfarið hefur borið á því að íbúar í syðsta hluta Hafnarfjarðar hafa verið iðnir við að skrifa um fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík. Hefur þeirra helsta kvörtunarefni verið sjónmengun. Þessir íbúar búa í þeim hluta bæjarins sem telst til Vallahverfis en það hverfi er nýtt, varla eldra en 5 ára.
Nú skulum við aðeins hugsa til baka. Álverið í Straumvík hefur verið starfrækt frá því árið 1969, eða í 37 ár. Það hefur skilað Hafnarfjarðarbæ stórum hluta af útsvarstekjum bæjarins og um leið skapað fjölda fólks atvinnu, beint og óbeint. Svo að af byggingu þess gæti orðið var ákveðið að ráðast í byggingu stærstu virkjunar sem þá hafði verið byggð á landinu, Búrfellsvirkjun. Sá byggingartími, líkt og Kárahnjúkadæmið nú, skapaði fjölda fólks atvinnu sem kom þjóðarbúinu vel því síldin hvarf á svipuðum tíma. Allir þessir þættir sköpuðu tekjur til þjóðfélagsins sem annars hefðu líklegast aldrei fallið til, ekki bara í beinum launatekjum og sköttum heldur einnig t.d. í gegnum raforkusölu og sölu lands. Nú má svo sem spyrja hvort landrýmið sem fór undir uppistöðulón virkjunarinnar hafi ekki peningalegt gildi, vissulega en ég tel að fórnin sé minni en ábatinn.
Þessir umræddu íbúar hafa nú undanfarið kvartað hástöfum í Morgunblaðinu, Fjarðarpóstinum (bæjarblaðið í Hfj) og fleiri stöðum og hafa talað um að þeir vilji álverið burt því af því stafi svo mikil sjónmengun. Halló, þetta lið ætti nú að læra halda kj því álverið er búið að vera þarna í um 4 áratugi en húsnæði fólksins er max 5 ára gamalt. Er þetta ekki spurning um að fólk hugsi aðeins áður en það fer að tjá sig opinberlega? Ef það hefur hugsað aðeins áður en það fjárfesti í þessum eignum þá hefði það nú átt að sjá að útsýnið úr stofugluggunum var nú ekki mikið, álverið og iðnaðarhverfið þar beint á móti. Þrátt fyrir þetta "fagra" útsýni hefur íbúðaverðið í Vallahverfinu haldist nokkuð hátt undanfarið en samkvæmt lögmálum hagfræðinnar ætti hátt íbúðaverð að stafa af mikilli eftirspurn og litlu framboði en það er oft raunin í nýjum hverfum. Reyndar er það svo álitamál hvort framkvæmda- og söluaðilar hafi ekki átt sinn þátt í því að hækka íbúðaverðið á undanförnum misserum, alla vega er það mín skoðun.
Andstæðingar álversins hafa einnig bent á þá mengun sem það veldur í umhverfi sínu og að stækkun myndi auka hana. Iðnaði fylgir alltaf mengun en álverinu er skylt að hafa öflugan búnað sem takmarkar viðeigandi mengun eins og kostur er. Þessi mengunarbúnaður er tilgreindur í lögum um starfsemi stóriðjuvera. Umhverfi álversins er um 4000 ára gamalt hraun sem erfitt er að ímynda sér að hafi eitthvað tilfinningalegt gildi. Af hverju má ekki allt eins byggja upp iðnað þar frekar en að hafa þetta inn í byggð? Álverið var nú langt utan byggðar þegar það var byggt.

Að þessu ofansögðu læt ég það vera mín lokaorð að ég er samþykkur stækkun álversins í Straumsvík. Þeir íbúar Vallahverfis sem halda áfram að kvarta og kveina út af því útsýni sem þeir hafa skulu hugsa sinn gang áður en þeir draga andann næst því þeir hefðu átt að vita betur þegar þeir ákváðu að flytja á þetta svæði. Það er auðveldara að flytja eina fjölskyldu sem er ósátt en heilt álver. Þar að auki skilar fjölskyldan ekki teljandi ábata til bæjarins miðað við þann kostnað sem þau geta valdið bæjarfélaginu, t.d. vegna samfélagslegs kostnaðar sem fellur til á bæjarsjóð.
Kosning um stækkun álversins samhliða Alþingiskosningum næsta vor er sóun á almannafé og tel ég að því fé væri betur varið í greiðslu skulda bæjarsjóðs.
- - - - -

Hvernig er það, er einhver sammála mér eða kannski allir ósammála?

Nokkrir punktar

Þá er maður kominn heim frá Köben eftir um 6 tíma töf sem varð vegna nokkurra vindstiga hér á klakanum. Við Gauti stóðum okkur nokkuð vel í drykkjunni verð ég nú bara að segja. Tuborg sá um að redda okkur slatta af nýjum jólabjór sem er nú bara skrambi góður, mæli eindregið með honum. Held að hann sé kominn í ríkið.

Atvinnuviðtalið sem ég minntist á í síðustu færslu skilaði mér ekki vinnu, ekki fleiri orð um það. Koma tímar koma ráð og önnur tækifæri/viðtöl.

Hvernig tilfinning haldið þið að sé að finna eitt stykki stóra 50 manna rútu fara slæda (slide, renna til að aftan)? Lenti í því á laugardaginn, svaka stuð og nokkrir svitadropar. Það skal tekið fram að ég var á ca 50 km hraða á 90 svæði á Þingvöllum, getið því ekki sagt að það hafi verið hraðakstur ;)