Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

27.3.07

Bjór og léttvín í búðir

Smá meir - annað efni sem ég vildi ekki hafa með í hinni færslunni

Í vísó í Víking var fyrirlesarinn spurður um álit fyrirtækisins á því ef einkasala ÁTVR af bjór og léttvíni yrði afnumin. Svarið var á þá leið að Víking er á móti því á þeim forsendum að lágvöruverðsverslanirnar tækju þá yfir markaðinn og þá eingöngu með örfáar tegundir. Þetta sjónarmið er gott og gilt, þá sérstaklega ef hugsað er um hagnaðarhámörkun fyrirtækja. Þegar ég ætlaði að fara reyna koma með eftirfarandi "dæmisögu" þá var eins og hún neitaði að hlusta því þetta væri það eina rétta frá sjónarhorni fyrirtækisins.
Ef við aftur blöndum aðeins saman hagnaðarhámörkun fyrirtækja og nytjahámörkun einstaklinga þá gætum við fengið annað svar.

Segjum sem svo að Bónus og Krónan muni bjóða upp á max 3 tegundir af ódýrum lagerbjór, líkt og Nettó í DK, en að Hagkaup og Nóatún einbeiti sér að vinsælli tegundum, t.d. Tuborg, Carlsberg, Thule og Víking.
Einstaklingur sem horfir einungis í krónur p/dós myndi þá líklegast versla nær eingöngu í Bónus og Krónunni en einstaklingur sem velur gæði fram yfir verð er þá reiðubúnari að borga meira og fer því frekar í Hagkaup eða Nóatún. Inn í þetta val spilast einnig tekjur einstaklingsins því að eftir því sem einstaklingur hefur hærri tekjur því reiðubúnari er hann að greiða hærri fjárhæð gegn því að fá betri gæði (alveg eins og með fæði stúdenta á námsárunum, það er allt annað en eftir útskrift sökum hærri tekna).
Það hefur reyndar oft tíðkast á meðal Íslendinga að spáð sé meira í magnið en gæðin þegar kemur að bjórdrykkju og í því samhengi myndu lágvöruverðsverslanirnar vinna en nú í seinni tíð hefur þróunin snúist við, að ég held. Það hefur tekið landsmenn 18 ár að læra meta bjórinn og fara haga drykkjunni meira í átt að gæðum en magni, ég er svo sem engin undantekning á því frekar en allir hinir.

Hvað með hlið fyrirtækjanna. Þau horfa jú helst á selt magn af sinni framleiðslu. Þær ölgerðir sem starfa hér á landi eru líklegast hræddar við það að lágvöruverðsverslanirnar fari að snúa sér að innflutningi á ódýrum bjór, ég skil það sjónarmið mjög vel. Í upphafi frjálsrar verslunar má að vísu reikna með því að verslun með innfluttan ódýran bjór verði meiri en öðrum bjórum en með tímanum má fastlega gera ráð fyrir því að þetta jafnist allt saman út. Landsmenn munu þá snúa sér aftur að innlendri framleiðslu ef það yrði sú bjórtegund sem þeim myndi líka best við. Þannig myndi draga úr markaðshlutdeild innflutta bjórsins og hlutdeild innlenda bjórsins myndi aukast. Auðvitað gerist þetta ekki allt saman á einu augnabliki, frekar svona á 2-3 árum max.

Ef þetta er svo summað upp kemur eftirfarandi niðurstaða, ef niðurstöðu má kalla:
Báðir aðilar á markaðnum, fyrirtækin og neytendurnir, hugsa fyrst og fremst um nytja- og hagnaðarhámörkun (sem er nokkurn veginn sami hluturinn). Frjáls innflutningur mun að öllum líkindum leiða til verðlækkunar á ölinu sem myndi þá þýða það að neytendur snúi sér strax að ódýrari vörunni, að því gefnu að þeir hugsi ekki um gæðin. Innflutt öl hefur hér fengið hlutverk ódýrari vörunnar. Fyrstir til að finna fyrir samdrætti væru því innlendir framleiðendur, en þó aðeins tímabundið eða á meðan hagkerfið kemst aftur í jafnvægi. Þegar jafnvægi væri náð er um hámark neytenda og framleiðenda að ræða því báðir aðilar hafa fundið sína kjörstöðu á markaðnum, þ.e. neytendurnir hafa fundið hvaða neysla hentar þeim best og fyrirtækin hafa fundið út hvaða framleiðslumagn hámarkar þeirra hagnað.

Var einhver sem skildi þetta allt saman, ef svo er, hvert er þá álit ykkar?

Mitt mat á þessu er það að ölgerðirnar þurfa ekki að óttast of mikinn samdrátt því fólk er farið að átta sig á gæðum frekar en magni, nema þá helst námsmenn sem hugsa akkurat um andhverfuna - fá sem flestar dósir fyrir peninginn.

Hringferð

Skellti mér í hringferð um landið ásamt 10 krökkum sem flest voru MS nemar í umhverfis- og auðlindafræðum, að sjálfsögðu var ég við stýrið - glætan að ég myndi nenna hanga í rútu í 5 daga og bíða eftir næsta stoppi.

Ferðin í heild var hin besta skemmtun en langbest fannst mér samt að skoða landið okkar í vetrarbúningnum.
Útlitið í upphafi var nú ekki alltof gott því ekki var ferðaveður út úr borginni sökum skafrennings á Sandskeiði en það bjargaðist á síðustu stundu. Við fengum gott veður aðra daga ef frá er talinn dagurinn sem við keyrðum heim því þá var rok og rigning.
Allir vegir sem voru X metrum yfir sjávarmáli voru umkringdir snjó og klaka en merkilegt fannst mér samt hvað það var lítil hálka. Leiðinlegasti parturinn fannst mér vera keyrslan upp að Kárahnjúkum því þar var AKKURAT ekkert að sjá nema endalaust af vinnuvélum. Eftir þann krók sannfærðist ég um þá skoðun mína að ég sé ekkert að því að búa til þessa stíflu og og virkja þá orku sem Jökla hefur að geyma. Ég var reyndar einn um þá skoðun í ferðinni því fólkið er jú að læra um mest allt það slæma sem svona framkvæmdir hafa á umhverfið, svolítið litað af viðhorfi kennarana. Orkan í Jöklu er auðlind sem vert er að nýta til góðra verka fyrir hagkerfið okkar en það mun á endanum koma öllum til góða, líka mótmælendunum. Því geta fáir hafnað.
Ferðinni var svo slúttað með vísó í Víking á Akureyri þar sem fram fór mjög svo vísindaleg umræða um umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Nú þýðir ekki að hanga lengur við bloggskrif, námið kallar. Þar til næst ...

19.3.07

Viðbót við síðustu færslu

Það er minnst á þetta óhapp, ásamt öllum hinum óhöppunum um helgina, á bls 4 í Mogganum í dag. Það þarf ekki mikið til að komast í blöðin ;)

Svakaleg helgi

Nú verð ég barasta að blogga því helgin var svakaleg.

Eins og svo oft áður var ég að vinna um helgina en eins og flestir vita var veðrið kannski ekki það besta.

Á laugardag lenti ég í því að þurfa bruna upp á Gullfoss með nýja rútu því rútan sem var þar fyrir rann út af veginum. Á leið í bæinn fór veðrið versnandi, eiginlega svo versnandi að mér stóð ekki á sama. Þegar ég lagði svo af stað frá Hveragerði var ég hættur að sjá meira en rétt eina stiku fram fyrir rútuna sem stafaði af svakalegum skafrenningi. Þegar ég kom svo upp í Kambana dró ég hvernig bílinn af öðrum uppi en þeir komust ekki áfram sökum hálku, þeir spóluðu sig bara áfram og einhverjir sneru við (skynsamir). Á vissu augnabliki fór rútan líka að spóla því það var bíll fyrir framan sem stoppaði eiginlega á punktinum en sökum skyggnis þá var ég ekki almennilega klár á því hvar á veginum við vorum. Eftir að hafa keyrt yfir heiðina, nokkurn veginn eftir minni, þurfti ég að stoppa til að slá af þurrkublöðunum. Þá kom til mín maður sem hafði fest jeppann sinn þarna rétt hjá því "hann hitti ekki á veginn" eins og hann orðaði það. Jeppinn komst upp á veg í 2.tilraun og allir komust heilir heim.

Nú er bara hálf sagan sögð.

Í gær, sunnudag, fór ég af stað um hádegi í gullhring á stórri rútu sem vegur um 15 tonn tóm. Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar var allt í lagi með færð til Þingvalla þannig að stefnan var tekin þangað. Enn og aftur var skyggnið asskoti slæmt og jafnvel svo slæmt að akkurat ekkert sást fram fyrir rútuna. Öðru hvoru mætti ég litlum fólksbílum þannig að ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki verið svo slæmt. Er við vorum að koma til Þingvalla mættum við jeppakörlum með sleðakerrur, þar var einn eitthvað að drífa sig og tók fram úr öðrum. Sá rétt slapp á réttan vegarhelming áður en illa fór. Aðeins um 2-3 mín síðar mættum við fleiri jeppum og aftur öðrum jeppa á röngum vegarhelmingi en sá var ekki jafnheppinn og sá fyrri því þessi endaði framan á rútunni. Höggið var svo sem ágætt en við fundum lítið sem ekkert fyrir því. Jeppinn var skilinn eftir á Þingvöllum því hann var óökuhæfur eftir áreksturinn. Sem betur fer voru engin alvarleg slys á fólki (enginn farþegana slasaðist) en fólkið í jeppanum fann fyrir verkjum í hálsi, öxlum og baki. Út af því þurfti að kalla til lögregluna sem kom eftir dágóða stund sökum slæms skyggnis. Tjónið á rútunni var það lítið að hægt var að klára ferðina en þó var það ekkert svo lítið. Framendinn var allur í klessu, þó sérstaklega vinstra hornið.
Á leið frá Þingvöllum, niður með Soginu, kom það 2-3 sinnum fyrir að ég hreinlega stoppaði því ég sá minna en ekkert.

Við náðum að klára hringinn án frekari óhappa og allir voru himinlifandi með að komast á hótelin heilir á húfi. Það gerist nú ekki oft en ég fékk dúndrandi lófaklapp og húrrahróp þegar við komum til Rvk.

Lærdómur fyrir alla aðila;
Högum akstri eftir aðstæðum og reynum eftir fremsta megni að keyra á réttum vegarhelmingi.