Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

27.4.08

ANZAC

Sælt veri fólkið

Síðasta föstudag var svokallaður ANZAC dagur hér í Ástralíu en á þeim degi er hermönnum þessa lands sýnd virðing. Dagurinn byrjar á því að fólk safnast saman við minnisvarða um fallna hermenn, sú athöfn fer fram í dögun eða á milli 4 og 6 að morgni. Eftir athöfnina marséra fylkingar um götur borgarinnar við taktfastan trommuslátt og einstaka trompet. Um hádegi er svo aðalskrúðganga dagsins en þá safnast þeir hermenn saman í miðborginni sem hafa þjónað landi sínu í gegnum súrt og sætt síðustu áratugina og marséra saman að minnisvarðanum. Inn á milli hópanna keyra svo gamlir herbílar. Þegar að minnisvarðanum er komið, og allir hafa skilað sér þangað, hefst dagskrá í tilefni dagsins. Dagskráin hófst á þjóðsöngnum og Faðir vorinu, á eftir því kom fylkisstjórinn í pontu og síðan hver annar pólitíkusinn.

ANZAC stendur fyrir Australian New Zealander Army Corps. Þann 25.apríl árið 1915, réðust ástralskar og ný-sjálenskar hersveitir inn í Tyrkland. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð ástæðunni enn, en þetta var víst stórmerkilegt í sögu landsins. Þúsundir ástralskra og ný-sjálenskra hermanna létu lífið í þessum hluta fyrri heimsstyrjaldarinnar en þeim hafa stöðugt verið þakkaðar þessar fórnir. Í 95 ár hafa Ástralir vottað öllum sínum hermönnum virðingu á þessum degi, óháð því í hvaða stríði þeir hafa verið, ef þeir hafa þá farið í stríð.

Við Katrín vöknuðum upp við dynjandi trommuslátt í morgunsárið. Þegar við litum út um gluggann sáum við fylkingu hermanna marséra um götuna okkar. Þetta var mjög tignarleg sjón og í raun geta fá orð lýst þeirri upplifun sem þessi sjón var.
Við röltum niður í bæ til að sjá hina stóru skrúðgöngu. Þar var önnur tignarleg sjón því þegar við komum á svæðið voru alls kyns hermenn að stilla sér upp. Elstu göngugarparnir voru líklegast í kringum nírætt og allt niður í fólk á mínum aldri. Sumir af þeim sem yngri voru báru líklegast orður feðra sinna eða afa, en það voru sko ekkert fáar orður á sumum þeirra. Ég man eftir að hafa séð 3 þéttar raðir á nokkrum herramönnum. Hópunum var raðað þannig upp að þeir sem höfðu barist í t.d. seinni heimsstyrjöldinni komu allir í einu. Inni í þeim hóp var svo raðað eftir því hvar þeir höfðu barist. Svona var þeim öllum raðað, ekkert endilega í tímaröð. Inn á milli komu svo herbílar frá hverju tímabili, fullt af flottum Jagúar-bílum og ég tala nú ekki um Rollsana. Með reglulegu millibili voru svo sekkjapípuhópar og lúðrasveitir sem spiluðu lög við hæfi.

Þegar síðasti hópur hafði lagt af stað, komu áhorfendur á eftir. Leiðin lá að minnisvarða um alla þá hermenn sem hafa þjónað landinu, jafnt fallna sem ófallna. Hjá minnisvarðanum stóðu hermenn vaktina, óvopnaðir þó, heiðursvörður væri líklega betra orð. Eftir stutta stund var fólk beðið að standa á fætur og hlýða á þjóðsönginn og fara svo með Faðir vorið. Það þótti mér einna tilfinninganæmasta stundin því ég sá fólk tárast á meðan það fór með Faðir vorið. Því næst fylgdu ræðuhöld sem við Katrín nenntum ekki að hlusta á.

Á heimleiðinni sáum við mun manneskjulegri hlið á hermönnunum, þeir voru á barnum með öl í hönd. Mér þótti það skondin sjón því þeir voru margir hverjir í herbúningunum.

Í skrúðgöngunni voru 15.000 þátttakendur og var áætlað að áhorfendur hefðu verið 50.000. Það var sko vel þess virði að sjá þetta því við munum ekki upplifa svona skrúðgöngu heima á Íslandi. Eini sénsinn á því væri reyndar ef við héldum þeim degi hátt á lofti sem Bretar gáfust upp í Þorskastríðinu, hér forðum daga, en ég held að það verði ansi slöpp skrúðganga til lengdar.

Þessi dagur, föstudagurinn 25.apríl 2008, mun seint gleymast því öll sú virðing sem hermönnum þessa lands er sýnd er ekkert lítil. Hátíðarhöldin sem slík þóttu mér mjög persónuleg, það var ekkert verið að reyna gera þetta glæsilegt, heldur var áherslan lögð á merkingu dagsins. Ástralir eiga hrós skilið fyrir tryggð sína við alla þá menn og konur sem hafa þjónað landinu í stríðum síðustu aldar.

15.4.08

Footy

Núna um helgina skelltum við Katrín okkur á völlinn, við fórum að horfa á ástralskan fótbolta sem í daglegu tali er kallaður footy. Þetta var heljarinnar upplifun því við vorum eins og lítil heystrá í hlöðu, á vellinum voru rúmlega 44 þúsund áhorfendur. Stúkurnar voru á þremur hæðum, plús VIP hæðin sem var á milli hæða 2 og 3 og voru þær langt í frá að vera fullar. Leikurinn sem slíkur var mjög fjörugur þrátt fyrir að við skildum hvorki upp né niður í honum til að byrja með.
Til að gefa ykkur einhverjar vísbendingar um það hvernig leikurinn gengur fyrir sig þá skal ég reyna útskýra það. Leikurinn er í fjórum hlutum, 2 fyrir og eftir hálfleik, hver hluti er 20 mínútur. Á vellinum eru mjög margir leikmenn (náði ekki að telja), a.m.k. 6 dómarar og alltaf einhverjir vatnsdrengir til að gefa leikmönnunum að drekka. Þar að auki eru 2 sendiboðar af varamannabekknum inn á allan tímann (í sérbúning), líklegast til að koma skilaboðum frá þjálfurunum til skila til leikmannanna. Ég kalla þá sendiboða því það voru alltaf 2 að skiptast á að koma inn á, kannski tengdist það vörn og sókn. Það tók okkur Katrínu allan fyrsta leikhlutann að fatta gang mála. Á endanum ákváðum við að halda með því liði sem átti fleiri stuðningsmenn í kringum okkur en það var útiliðið. Það var líka eins gott því það lið vann með yfirburðum.
Það að fara svona á völlinn er sko miklu meira en að horfa á nokkur vöðvabúnt hlaupa hvert annað niður, þetta er sko heljarinnar menningarferð því þarna sér maður sko hvernig Ástralir eru í raun og veru. Boltinn er kannski svona helmingurinn af þessu en kúltúrinn hinn helmingurinn. Fólkið í kringum okkur var sífellt að skreppa í sjoppurnar, m.a. til að kaupa sér franskar, gos og síðast en ekki síst bjór. Mannskapurinn var sko ekkert að hika við það að fá sér nokkra kalda, þó svo að þeir þyrftu að troðast inn í miðja sætaröð með plastglasið eða jafnvel 4 glasa bakkana. Að sjálfsögðu voru einstaklingar á svæðinu sem kunnu sér ekki hóf í drykkjunni, en mér fannst það bara sýna hinn innri karakter heimamanna.

Ég held ég geti sagt það með nokkurri vissu að ég á eftir að fara á annan footy leik, þá ekki síst út af því að hér í borg eru 2 stórir leikvangar. Sá sem við fórum á er sá minni en hann tekur um 60 þúsund áhorfendur í sæti, sá stærri tekur rétt um 100 þúsund. Spurning um að velja góðan leik, líkt og við gerðum fyrir þessa helgi en liðin sem við sáum spila eru þau bestu í landinu og spiluðu meira að segja til úrslita í fyrra.

Footy-kveðja héðan að sunnan.

14.4.08

Lífið eftir páska

Nú er komið að því að fræða ykkur um lífið hér suður frá eftir páska.
Katrín fékk 1 viku í kennslufrí eftir páska en á sama tíma var ég kominn á fullt í að undirbúa mig undir enskupróf sem ég þreytti 5.apríl. Sú vika snerist því við, ég var að læra en Katrín að slappa af. Síðasta vika var sameiginleg þjáningarvika hjá okkur því ég var að læra á fullu og Katrín þurfti að hafa sig alla við til að halda í við kennarana. Þessi vika, á hinn bóginn, hefur verið algjör letivika hjá mér og það stefnir í fleiri þannig vikur í nánustu framtíð. Ég reyni því mitt besta að hvetja Katrínu áfram og jafnvel líta yfir þau verkefni sem hún er að vinna.

Til að brjóta upp hið hefðbundna stúdentalíf breyttum við okkur í erlenda ferðamenn. Hópurinn samanstóð af 9 víkingum; 5 Íslendingum, 2 Dönum og 2 Finnum. Var um dagsferð að ræða í rútu með leiðsögn og var ferðinni heitið í vínsmökkun og gufulest. Dagurinn heppnaðist alveg svakalega vel, svo vel að hann endaði á pöbb um kvöldið. Eitt get ég sagt ykkur, það að borða 2 stórar máltíðir yfir daginn er sko allt of mikið fyrir mig. Varúð – ekki fyrir viðkvæma; ég hafði ekki lyst á nema rétt tæpum 3 bjórum um kvöldið. Já, ég veit, þetta jaðrar við guðlasti. Guðjón, ég vona að þú fyrirgefir mér þetta – hehe.
Þar að auki skelltum við Katrín okkur niður að sjó til að berja hinar frægu mörgæsir augum. Við fórum á stað sem heitir Phillip Island en það tók um 2,5 tíma að keyra þangað þaðan sem við búum. Það var töluverð upplifun að sjá mörgæsirnar svona nálægt manni koma upp úr sjónum og hlaupa upp eftir ströndinni í holurnar sínar. Ætli það næsta sem maður hafi komist þeim hafi ekki verið um 1 metri. Til að toppa kvöldið sáum við villta kengúru skoppa inn á milli mörgæsanna, í runnunum. Það var frábær upplifun.
Eftir enskuprófið var okkur Katrínu svo boðið í skandínavískt grill. Sökum prófþreytu sváfum við grillið af okkur en mættum í staðinn galvösk í gleðskap eftir grillið. Þá reyndi ég hvað ég gat að bæta upp fyrir drykkjuleysið eftir rútuferðina. Það gekk svona líka vel að ég var frekar ryðgaður fram eftir sunnudeginum.

Snúum okkur nú að veðrinu. Það hefur sko heldur betur breyst frá páskum. Í vikunni eftir páska og fram eftir síðustu viku var nú bara frekar svalt eða um 15 gráður. Þá dugði sko ekkert minna en buxur og peysa, Katrín fór meira að segja í jakka. Nú er öldin önnur, sem betur fer. Nú er glampandi sól og hitinn um 20-30 gráður, stuttbuxurnar eru því komnar aftur í notkun. Njótið vorblíðunnar á norðurhvelinu og ég tala nú ekki um alla hálkuna.

10.4.08

Ástralskir páskar og páskasteikin ógurlega

Mikið svakalega stend ég mig vel í því að segja fréttir héðan af suðurhvelinu, eða þannig. Það eru víst komnar 3 vikur frá síðasta pistli sem er óafsakanlega langt síðan.
Páskarnir hérna suður frá (down under eins og heimamenn segja) voru frekar frábrugðnir hinum hefðbundnu páskum að því leytinu til að maður borðaði kryddaða kengúrusteik með piparsósu og alls kyns grænmeti. Með þessari svakalegu steik drukkum við svo hið fínasta rauðvín sem kostaði ekki nema rétt 600 kr. Í eftirrétt fengum við okkur svo Nóa páskaegg ásamt ástralskri súkkulaðiköku. Annað atriði sem var frábrugðið páskunum hér og heima er að hér voru um 25°C og við nutum kengúrunnar á stuttbuxum og –ermabol.

Annar dagur páska byrjaði á því að við röltum út í búð til að færa björg í bú og til að kaupa ástralskt páskaegg á hálfvirði. Við keyptum ekki bara eitt lítið egg, heldur tvö, í ágætri stærð. Eftir kvöldmat gæddum við okkur á því minna sem var páskakanína úr Deluxe rjómasúkkulaði frá Cadbury´s. Hitt eggið var Mars egg ásamt þremur Mars súkkulaðistykkjum. Það bíður enn eftir því að við gæðum okkur á því. Cadbury´s eggið var mjög gott og jafnvel betra en Nóa eggin en Nói hefur þó vinninginn hvað varðar nammið og málsháttinn því það er ekkert svoleiðis hér niður frá að því er við best vitum.

Páskasteikin heppnaðist alveg rosalega vel, hún var jafnvel betri en íslenski hamborgarahryggurinn. Ég ætla láta uppskriftina fylgja með hér fyrir neðan (höfundarréttur áskilinn):

500 gr af kengúrukjöti
½ sæt kartafla
2 gulrætur
½ haus af brokkoli
Dós af grænum baunum
Dós af sveppum
Piparsósa
Nokkur saltkorn
Rauðvínsflaska

Eldunaraðferð:
Rauðvínsflaskan opnuð. Kengúran lögð í rauðvínsmareneringu ca klukkustund fyrir eldun, grænmetið og kartaflan skorin niður eftir smekk, niðursuðudósir opnaðar.
Pannan sett á eldavélina við nokkuð snarpan hita, kartaflan látin á pönnuna ásamt nokkrum saltkornum, hún látin steikjast þar til hún verður létt gyllt að utan, þá tekin af pönnunni og sett til hliðar. Því næst er kengúran flutt úr mareneringunni yfir á pönnuna ásamt rauðvínsleginum. Ekki þykir ráðlagt að lækka hitann fyrr en kjötið er lokað að utan. Þegar hitinn hefur verið lækkaður er nauðsynlegt að fylgjast vel með, passa að steikin brenni ekki að utan og einnig að hún verði ekki hrá í miðjunni, t.d. með því að skera í kjötið og skoða hver staðan er. Varast ber þó að ofsteikja kjötið því kengúrukjöt bragðast best medium eða medium rare steikt.
Nú skal setja um 1 bolla af vatni í pott ásamt hæfilegu magni af salti. Kveikja skal undir pottinum og bíða eftir suðu. Þegar suðan kemur upp er ráðlagt að setja gulræturnar út í, en brokkolí-ið aðeins síðar því það þarf styttri suðutíma. Grænmetið er svo gufusoðið þar til það er tilbúið.
Nú skal litið aftur á kengúruna. Ef rauðvínslögurinn hefur gufað upp er ekki úr vegi að skella smá lögg af olíu á pönnuna til að koma í veg fyrir bruna. Þegar sýnt er að kengúran sé að verða tilbúin er tilvalið að skúbba kartöflunum aftur á pönnuna og jafnvel bæta smá olíu við. Eins og glöggir menn vita er nauðsynlegt að snúa kengúrunni og kartöflunni reglulega við svo að koma megi í veg fyrir stórbruna og þurra steik.
Að þessu loknu skal hugað að sósugerð. Þá skal sósubréfið skoðað vandlega og leiðbeiningunum fylgt í hvívetna. Þó má bregða út af þeim og skella um hálfri dós af sveppum með ef svo ber undir. Sósan þarf ekki langan eldunartíma.
Nú, þegar allt er að verða tilbúið, er um að gera að ákveða hvort hinar grænu baunir skulu etnar beint úr dósinni eða hitaðar örlítið upp í örbylgjunni.

Hentugt getur verið að tveir einstaklingar komi að þessari eldamennsku því annar þarf að fylgjast nokkuð grannt með kengúrusteikinni sökum þess hversu viðkvæm hún er í steikingu. Sá einstaklingur sem lausari er við getur lagt á borð, skenkt rauðvíni í glös og sett ljúfa tóna undir geislann.
Nú er ekkert að vanbúnaði en að hefja matarveisluna.

Eftirréttur:
Íslensk desertegg frá Nóa Síríus, dýrindis áströlsk súkkulaðikaka og restin af rauðvíninu.

Njótið vel og verði ykkur að góðu.

p.s.
Vera má að smekkur manna sé misjafn þannig að þeir velji t.d. nautakjöt í stað kengúru og er það vel. Sökum hás kílóaverðs á nautakjöti hér syðra hef ég ekki lagt í slíka matreiðslu. Ef þið viljið frekar nautakjöt þarna norður frá þá er það í góðu lagi mín vegna. Varhugavert getur þá verið að fara eftir þessari uppskrift í einu og öllu.