Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

28.12.06

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kæru vinir, gleðileg jól og farsælt komandi ár

Ég vona að allir hafi átt ánægjulega jólahátíð og muni eiga ánægjuleg áramót.
Til þeirra sem ætla að kaupa rakettur: Persónulega finnst mér að fólk ætti að kaupa raketturnar af hjálparsveitunum því við treystum á það að okkur verði bjargað ef við lendum í einhverjum óhöppum hvar sem er á landinu og í hvaða veðri sem er. Mér finnst að kaupmenn sem taka sig til og selja rakettur ættu að skammast sín því þeir eru um leið að draga úr þeim fjármunum sem hjálparsveitirnar hafa til að halda sínum búnaði í sem bestu ástandi. Þessum sömu kaupmönnum finnst svo sjálfsagt að hjálparsveitirnar komi og bjargi þeim ef þeir lenda í óhappi þrátt fyrir að hafa verið í samkeppni við þá örfáum vikum áður.
Nú segir eflaust einhver að hann muni nú frekar kaupa ódýrari rakettur ef hann á þess kost, lágmarka kostnað fyrir sömu hamingju. Hafið það þó hugfast að þið styðjið verslanir allan ársins hring með því að kaupa í matinn en hjálparsveitirnar óska eftir stuðningi landsmanna einu sinni á ári með jólatrjáa- og rakettusölunni. Eiga þær það ekki skilið að landsmenn hjálpi þeim að viðhalda góðu viðbúnaðarstigi?

17.12.06

Ekki titilhæft

Eins og margir muna skrifaði ég nýlega eina leiðindafærslu um leiðindamál. Þeirri færslu hefur nú verið eytt því hún var skrifuð á viðkvæmu augnabliki. Ég vil biðja þá aðila afsökunar sem urðu eitthvað sárir út af þeim skrifum.

Þetta vil ég þó segja í staðinn því þetta er efst í huga mér þessa dagana:

Samband mitt við Katrínu Ástu er það besta sem komið hefur inn í líf mitt. Án þessarar yndislegu stúlku hefði ég líklegast aldrei verið kominn á það stig í mínu lífi að verða jafnvel að einhverju. Með því á ég við að ég hefði eflaust hætt í námi og snúið mér alfarið að einhvers konar verkamannavinnu alla ævi. Allar góðu minningarnar úr því sem við gerðum saman, t.d. útilegurnar og ferðalög erlendis, munu ávallt minna mig á hversu góðir tímar þetta hafa verið.

Lifið heil

14.12.06

Bjartsýnisblogg

Er ekki málið að reyna blogga um skemmtilegri hluti en í síðustu færslu? Það finnst mér.

Mikið er nú ljúft að sitja hér á Hlöðunni og hreinsa til í ritgerðinni um leið og ég hlusta á hin ýmsu hljóð sem koma frá stressuðum háskólanemum. Sem dæmi þá er sessunautur minn stöðugt að dæsa en stúlkukindin hefur greinilega ekki sofið mikið í nótt, sbr baugana sem hún er með.
Það eina sem heldur manni við efnið hér er að í prófatíð er strangara eftirlit með fjarvistum frá lesborðunum þannig að maður þarf að vera duglegur við að lágmarka lengd kaffitímanna.

Annars finnst mér Íslendingar vera fífl. Hvað á það að þýða að hringja í lögregluna og kvarta yfir því að vegi sé lokað vegna alvarlegs slyss? Myndu sömu einstaklingar ekki óska þess að fá að vinna í öruggu umhverfi ef þeir þyrftu að sinna vettvangsrannsóknum? Ég held að jólastressið hafi nú hlaupið með fólk í gönur um síðustu helgi og mega þeir hinir sömu skammast sín.

8.12.06

Desember - engin próf

Mikið er nú ljúft að vera ekki í neinum prófum í desember. Það þarf stórátak til að rífa sig á fætur fyrir sólarupprás svo manni verði eitthvað úr deginum. Þetta er ljúft líf :)
Til þeirra sem eru í prófum, have fun.