Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

27.2.07

Enn einn mánuðurinn búinn

Obbo sí, febrúar er næstum búinn en viss hlutur er ekki alveg búinn. Ég held svei mér þá að ég verði að fara gera eitthvað í því sérstaklega ef ég ætla ekki að lenda í því að gera allt í loftköstum síðustu dagana fyrir endanlegan skiladag.

Annars hefur febrúar bara verið alveg yndislegur mánuður fyrir utan síðustu daga út af ákveðnum ástæðum, say no more.

16.2.07

Pólitík

Er ekki kominn tími á eins og eitt blogg?

Fyrir ekki svo löngu síðan viðraði ég skoðanir mínar á kosningum um stækkun álversins í Straumsvík. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst í gær, þvílík vitleysa og sóun á almannafé. Bærinn hefur bara gott af þessari stækkun.

Undanfarið hafa verið að birtast niðurstöður skoðanakannana út af kosningum til Alþingis nú í maí. Þar hefur ýmislegt komið í ljós, gott og slæmt. Hvernig dettur fólki t.d. í hug að halda það að formenn VG og Samfylkingarinnar geti stjórnað landinu? Annað alltaf á móti öllu og hitt fyrrum spilltur borgarstjóri. Landið fer nú bara til helvítis ef þau fá lyklana að ríkiskassanum. Ekki bætir nú úr skák ef Frjálslyndir, með sitt útlendingahatur, færu í samstarf með þeim.
Með þessu er ég ekki að segja að það sé ekki þörf á breytingum í landspólitíkinni en það má taka minni skref í einu.

Hvort viljum við lága verðbólgu og hæfilegt atvinnuleysi eða mikla verðbólgu og lítið atvinnuleysi? Okkar er valið þann 10.maí.

2.2.07

Ný vísitala

Eins og margir vita, sem kunna eitthvað í vísitölufræðum, þá er ein þekktasta vísitala heims hin svokallaða BigMac vísitala en hún mælir kaupmáttarjafnvægi á milli landa. Í vísitölunni hefur BigMac borgarinn í USA stuðulinn 1, sem þýðir að USA er grunnurinn, en stuðullinn hér á Klakanum er ca 2,5. Það þýðir að fyrir hvern BigMac sem við kaupum getur Kaninn keypt ca 2,5. Engin furða þó það sé farið að gæta offituvandræða hvarvetna í heiminum.

Nú nýlega sá ég í blöðunum að fræðimenn úti í heimi hafa ákveðið að búa til nýja vísitölu sem ætti að auðvelda samanburðinn á milli landa ennfrekar, það er hin svokallaða iPod vísitala. Rökin sem þeir nefndu fyrir þessum breytingum eru góð og gild svo langt sem þau ná en aðalrökin eru þau að hráefniskostnaður hvers borgara er mjög mismunandi milli landa og því getur verið erfitt að bera saman BigMac í mjög þróuðu landi við BigMac í þróunarlandi. Allir iPodarnir eru víst framleiddir í Kína og því ætti ekki að vera neinn vandi að bera þá græju saman á milli landa.
Nú er bara að bíða og sjá hvaða stuðul við fáum í þessari nýju vísitölu. Vill einhver giska?