Jón Ólafur skrifar frá Melbourne, Ástralíu

Hinar ýmsu pælingar, efnahagsmál og þjóðmálaumræða. Eða eitthvað í þeim dúr

28.7.06

Mótorhjól o.fl.

Duglegur ég að blogga, er það ekki?
Annars er ekkert að frétta af mér annað en það að ég þjáist af ritgerðarstíflu. Ég skal samt lofa því að fara skrifa eitthvað um síðustu daga ferðarinnar til fyrirheitna landsins, þegar ég nenni því.

Flestir þeir sem villast hingað inn hafa eflaust séð í fréttum og blöðum í gær og morgun, fimmtudag og föstudag, að mótorhjólaliðið safnaðist saman til að ræða málin út af háu hlutfalli mótorhjólaslysi þetta árið, þar af 3 banaslys. Miðað við þessa frétt, sjá hér, þá geta þeir bara sjálfum sér um kennt og ættu að kenna sínu fólki umferðarreglurnar áður en þeir fara væla í fjölmiðlum. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum verið nálægt því að lenda í árekstri við mótorhjól á þjóðvegum landsins einmitt út af glæfraakstri hjá þeim sjálfum. Rútur eru læstar í 100-105 km/klst þannig að ekki var það rútan sem ók hratt.

18.7.06

Kominn heim

Þá er þessi sæla að baki og alvaran tekin við.
Ferðin í heild var frábær í alla staði og hugurinn farinn að huga að næstu ferð sem gæti orðið í upphafi næsta árs ef ekkert major dæmi kemur í veg fyrir það. Mér finnst full langt mál að fara segja frá ferðinni, til viðbótar við það sem hefur verið ritað áður, en það er samt aldrei að vita nema ég komi með einhverja punkta um nokkur atriði á næstu dögum. Ég er nefnilega að búa til nokkrar færslur í huganum sem gætu endað í einni langloku.

Einn fróðleiksmoli:
Ástralía er svipuð að flatarmáli og Norður-Ameríka.

Réttið upp hendi sem vissuð þetta !!!

10.7.06

Kengúrur og kóala í nærmynd

Jebb, maður getur nú ekki farið alla leið á suðurhvel jarðar án þess að ná að sjá kengúrur eða kóala - það er eiginlega bara algjört must. Við Katrín skelltum okkur í dýragarð, sem er staðsettur út í sveit, en hann sérhæfir sig í áströlskum dýrum eingöngu. Þau dýr sem við sáum voru t.d. kengúrur, kóala, emúar (fuglar sem eru ekki ósvipaðir strútum), fullt af alls kyns næturdýrum (komum að einu parinu í action - hehe), Tasmaníu djöfullinn, ástralskur villihundur, alls kyns snákar, eðlur og froskar. Í garðinum var líka fullt af fuglategundum sem ég náði sko alls ekki að læra nöfnin á. Ég dró djúpt andann og ákvað að snerta á einum snák sem var í höndunum á dýraverði, það var mjög sérstakt og hvergi nærri eins slæmt og ég hélt.
Það sem stendur nú helst upp úr þessum degi hjá mér er að hafa staðið svona rosalega nálægt kengúrunum og kóölunum. Girðingarnar voru mjög lágar þannig að ef ég hefði virkilega viljað taka smá áhættu þá hefði ég alveg getað teygt mig inn fyrir og klappað þessum frægustu dýrum landsins. Það verður bara næst :o)

Látum okkur nú sjá, hvað annað höfum við verið að gera og hvað hef ég upplifað?
Júbb, Katrín var búin að minnast á hversu góð Peking önd væri. Við ákváðum að fá okkur eina slíka og nammi namm, mikið asskoti var hún góð. Ekki skemmdi þetta frábæra meðlæti og vínið sem við höfðum með. Eftir þennan líka gómsæta kvöldmat ákváðum við að rölta smá um borgina og kíkja á nokkur kaffihús/bari og hella í okkur góðum veigum sem runnu ljúflega niður. Þegar við vorum að labba út af einum staðnum kom maður aftan að okkur og spurði ósköp rólega; "Hey guys, do you need a company?" Við afþökkuðum boðið hið snarasta og urðum eiginlega kjaftstopp því þarna kom bláókunnugur maður og bauð blíðu sína. Ulla bjakk.

Á meðan ég var að skrifa þetta blogg fékk Katrín einkunnirnar sínar, alla nema eina þó. Hún náði sínum prófum með glans og óska ég henni hér með innilega til hamingju með árangurinn :o)
Nú er bara að valta yfir prófin mín í ágúst og skila inn brilliant ritgerð til að eiga betri séns á því að komast inn í nám hér á næsta skólaári ;)

6.7.06

Stóri-Sjór og Durian

Í gær skelltum við okkur í 12 tíma rútuferð sem heitir á tungu heimamanna The Great Ocean Road. Þetta er leið sem hermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni byggðu meðfram ströndinni hér skammt vestur af Melbourne. Þetta var nokkurs konar atvinnubótavinna hjá þeim því þeir komust ekki í aðra vinnu vegna atvinnuleysis sem ríkti á þeim tíma. Ferðin í heild var frábær og sáum við fullt af skemmtilegum stöðum, t.d. litla strandbæi, fallegar sandstrendur og fullt af öðrum skemmtilegum upplifunum sem er of langt mál að fara telja upp hér. Það sem stendur þó upp úr að mínu mati er að í einu photostoppinu sáum við vakandi kóalabjörn upp í tré, sá kunni aldeilis að pósa þó þreyttur væri :o)

Í dag fórum við svo í bæjarferð um Melbourne í rútu. Sú ferð var ekki eins skemmtileg og hinar fyrri því leiðsögumaðurinn talaði non-stop allan tímann. Sem betur fer var Katrín búin að sýna mér það markverðasta en þó var fínt að fá einstaka staðreyndir um borgina.

Nú rétt áðan gerði Katrín tilraun til að gera út af við mig því hún sá ísbúð sem bauð upp á ákveðna tegund af ís. Þessi tegund hafði durian bragð en því má best lýsa sem myglaðri vanillu- og fisklykt saman í boxi. Ég gerði okkur þann óleik að klára það sem var keypt af þessu ógeði en afleiðingarnar eru þær að nú anga ég af þessu ógeði og Katrín situr ekki við hliðina á mér með bros á vör. Þegar ég ropa (sem gerist stundum eftir ísneyslu) kemur þetta bévítans bragð upp í munninn á mér og grettan á andlitinu er ansi vígaleg. Sterkur mentholbrjóstsykur dugði ekki einu sinni til að taka bragðið af tungunni. Ekki bætir nú úr skák að ég fæ ekki að kyssa stúlkukindina næstu klukkustundirnar, sem er frekar slæmt sko. :o(
Þið tilraunasjúku einstaklingar, ekki kaupa þetta ógeð þó að Hagkaup fari að bjóða upp á þetta - þetta er ÓGEÐSLEGT.

4.7.06

Vínsmökkun

Nammi gott!!!
Fórum í vínsmökkunarferð í dag og því er þetta blogg pikkað undir síðustu áhrifunum af einu af fjölmörgum vínglösum sem runnu niður í dag.
Það er nú ekki slæmt að geta farið í rútuferð og fengið að smakka alls kyns áfengi án þess að borga sérstaklega fyrir það. Ekki skemmir heldur að rútufyrirtækið hafi gert mistök þegar pöntunin var gerð þannig að við fengum dýrari ferð, ferð í gufulest og vínflösku í sárabætur. Og síðast en ekki síst fáum við besta sætið á morgun í enn annarri rútuferð. Íslensk rútufyrirtæki mættu taka sér svona framkomu til fyrirmyndar og hana nú.

Vínin sem voru smökkuð voru brugguð á alls kyns máta sem ég náði misvel en það skiptir minnstu. Mestu máli skiptir að áhrifin af þeim komu þegar það átti við, er einhver ósammála? :o)

Nú er bara að skreppa í búðina, kaupa sér góða steik á örfáa dollara og drekka vínið sem við fengum í dag í sárabætur frá rútufyrirtækinu :o)

Skál !!!

3.7.06

Skólaumsóknir

Hvernig er hægt að gleyma aðalatriðinu

Í dag sótti ég um í 2 háskólum hér.
Rithandarsérfræðingar University of Melbourne og RMIT fá nú það hlutverk að skilja mína fallegu rithönd.

Nú er bara að bíða og sjá hvernig það dæmi fer allt saman :)

Matur o.fl.

Ég ákvað að búa til smá lista yfir það sem ég hef smakkað hér suður frá. Á listanum er t.d.;
- kengúrukjöt
- mangosteen
- mango
- ferskur ananas
- þurrkað kengúrukjöt (jerky)
- kínverskir dumplings
- lichi, það er ljúffengur ávöxtur
- James Boags, bjór frá Tasmaníu. Mjög góður og hressandi.
- indverskur matur. Roti (lesið; rótí) og alls konar sósur, parathi og dahl (linskubaunajukk)
- kínverskt bakkelsi (rauðbaunapakki)
- meat pie
- Tim Tam. Uppáhaldskexið hennar Katrínar
- ginger beer
- ástralskur malt bjór
- vegemite. Það er ógeðslega vont
- sojamjólk
- Hungry Jack´s, sem er reyndar Burger King (sem ég hef borðað þó nokkuð oft)
og eflaust eitthvað til viðbótar sem ég man ekki eftir í augnablikinu.

Svo er á planinu að smakka Peking Önd, drykkjarkókoshnetu, meiri indverskan.

Meira seinna :o)